Tilgangur SVESI

Lög

Stjórn

Umsókn um aðild

Tenglar

Tilbaka

 

 

LÖG FYRIR SAMTÖK UM VERND EIGNARÉTTINDA Á SVIÐI IÐNAÐAR.

1. gr.

Samtökin heita "Samtök um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar", (skammstafað SVESI). Heimili samtakanna og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.

Tilgangur samtakanna er:
1. Að stuðla að því að uppfinningamenn, hönnuðir, framleiðendur og aðrir sem hagsmuni eiga, njóti fyllstu verndar á hugmyndum sínum og framleiðsluvörum, hvort heldur er á Íslandi eða erlendis.
2. Að stuðla að þróun löggjafar og lagaframkvæmdar á Íslandi til verndar á eignarréttindum á sviði iðnaðar.
3. Að auka þekkingu félagsmanna og annarra landsmanna á þeirri löggjöf sem fyrirfinnst hér á landi og erlendis um eignarréttindi á sviði iðnaðar, svo sem einkaleyfislögum, vörumerkjalögum, reglum um útlitsvernd með mynsturlöggjöf og öðrum skyldum reglum.
4. Að hafa í heiðri þær meginreglur sem fram koma í alþjóðasamningi um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar (Parísar-samþykktinni frá 20. mars 1883 með síðari breytingum).

3. gr.

Tilgangi sínum vilja samtökin ná með því:
1. Að skapa tengsl milli framleiðenda, uppfinningamann, hönnuða, og ráðgjafa um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar.
2. Að efna til almennra funda og taka þátt í útgáfustarfsemi um einstaka þætti iðnaðarréttinda.
3. Að starfrækja vinnuhópa um einstaka þætti iðnaðarréttinda.
4. Að beina opinberum ályktunum og tilmælum til stjórnvalda um úrbætur á löggjöf og lagaframkvæmd.
5. Að starfrækja sérstakan aðildarhóp að Alþjóðasamtökunum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar (AIPPI), í því skyni að fylgjast með þróun alþjóðlegs samstarfs á þessu sviði.

4. gr.

Félagar í samtökunum geta orðið einstaklingar, fyrirtæki, félög og stofnanir sem styðja markmið og starfsaðferðir samtakanna og greiða tilskilið árgjald.

5. gr.

Æðsta vald í málefnum samtakanna hefur aðalfundur. Aðalfundur skal haldinn í Reykjavík í marsmánuði ár hvert. Til hans skal boðað bréflega og með auglýsingu í blöðum eða á annan tryggilegan hátt og með viku fyrirvara hið skemmsta og er hann þá lögmætur. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á aðalfundi.
Þessi mál skulu tekin til meðferðar á aðalfundi:
1. Stjórn samtakanna gerir grein fyrir störfum samtakanna.
2. Félagsstjórn leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins.
3. Kosning formanns og annarra stjórnarmanna.
4. Kosning tveggja endurskoðenda.
5. Ákvörðun um félagsgjald.
6. Önnur mál.

Rétt til setu á aðalfundum hafa þeir einir sem lokið hafa greiðslu árgjalds liðins starfsárs.

6. gr.

Stjórn samtakanna skal skipuð fimm mönnum, formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara, og meðstjórnanda. Formaður skal kjörinn sérstaklega, en aðrir stjórnarmenn skulu kjörnir í einu og ræður afl atkvæða kosningu. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum að öðru leyti. Í forföllum formanns kýs stjórnin staðgengil hans úr eigin hópi. Kjörnir skulu tveir endur-skoðendur. Stjórnarmenn og endurskoðendur skulu kjörnir til eins árs í senn.

7. gr.

Formaður boðar til stjórnarfunda. Honum er skylt að halda stjórnarfund ef a.m.k. tveir stjórnarmanna krefjast þess. Þá boðar stjórnin til félagsfunda með dagskrá eftir því sem ástæða þykir til. Skylt er að halda félgasfund ef tveir stjórnarmanna eða tíu félagsmenn krefjast þess. Félagsfundir geta hvekkt ákvörðun stjórnar.

8. gr.

Umsókn um aðild að samtökunum skal send skriflega til stjórnar félagsins. Skal stjórnin þá taka umsækjanda á félagaskrá er hann hefur greitt félagsgjald.
Stjórn samtakanna getur vikið félaga úr samtökunum ef henni þykir efni standa til. Slíka ákvörðun má þó bera undir almennan félagsfund.

9. gr.

Þeir félgasmenn sem áhuga hafa, eiga rétt á aðild að Íslandsdeild í alþjóðlegu samtökunum "Association Internationale Pour la protection de la Propriété Industrielle" (AIPPI). Þátttaka í þessari deild skal tilkynnt stjórn samtakanna, sem jafnframt kemur fram fyrir hönd deildarinnar gagnvart AIPPI.

10. gr.

Við ákvörðun félagsgjalda skal því þannig hagað, að einstaklingar greiða a.m.k. helmingi lægra félagsgjald en fyrirtæki, félög og stofnanir. Þeir félagsmenn sem óska eftir aðild að AIPPI greiða sérstakt aðildargjald eftir því sem ákveðið er af þeim samtökum.


11. gr.

Lögum samtakanna verður aðeins breytt á aðalfundi og þarf til þess atkvæði 2/3 þeirra sem fundinn sitja.

 

Ákvæði til bráðabirgða:


Lög þessi öðlast gildi er þau hafa verið samþykkt af meirihluta stofnfélaga á stofnfundi Samtaka um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar, þriðjudaginn 4. mars, 1986. Skal þá þegar kosin fyrsta stjórn samtakanna og endurskoðendur. Rétt til þátttöku í atkvæðagreiðslu um lög samtakanna og í stjórnarkjöri á stofnfundi hafa þeir sem gerast félagar í samtökunum á fundinum. Fyrsti aðalfundur skal haldinn í mars 1987. Þannig samþykkt á stofnfundi á Hótel Esku í Reykjavík, 4. mars, 1986.