Tilgangur SVESI

Lög

Stjórn

Umsókn um aðild

Fróðleikur

Tenglar

 

Fræðsluefni:

Nýnæmiskrafa einkaleyfislaga og griðartími
Rán Tryggvadóttir

Erindi flutt á fræðslu- og umræðufundi SVESI vegna viðhorfskönnunar AIPPI

1.0 Nýnæmi
Veiting einkaleyfis, þ.e. einkaréttar til handa ákveðnum aðila til að nota uppfinningu í ákveðinn tíma, er af hálfu samfélagsins hugsuð sem hvatning fyrir þá sem vinna að hvers konar nýsköpun. Því er ein af meginforsendum þess, að einkaleyfisumsókn geti leitt til einkaleyfis, að uppfinningin teljist nýjung. Á Íslandi ere nýnæmiskrafan lögfest í 1. mgr. 2. gr. einkaleyfalaga nr. 17/1991 (el.). Þar segir:
Einkaleyfi verður einungis veitt fyrir uppfinningum sem eru nýjar með tilliti til þess sem þekkt er fyrir umsóknardag

Hér á landi sem og á öðrum Norðurlöndum gildir reglan um ótakmarkað nýnæmi. Allt sem almennur aðgangur er að fyrir umsóknardag, hvenær eða hvar sem er í heiminum, telst þekkt í skilningi einkaleyfalaganna og eyðileggur nýnæmi umsóknar, sbr. 2. mgr. 2. gr. el.
Það telst þekkt sem almennur aðgangur er að í rituðu máli, fyrirlestrum, með hagnýtingu eða á annan hátt. Einnig telst efni einkaleyfisumsóknar, sem lögð hefur verið inn hér á landi fyrir umsóknardag annarrar umsóknar, þekkt ef aðgangur verður almennur að fyrri umsókninni samkvæmt reglum 22. gr.

Það telst vera almennur aðgangur ef stór eða óskilgreindur hópur hefur haft tækifæri til að öðlast þá þekkingu á efni uppfinningar sem gerði sérfræðingi kleift að nýta hana.

2.0 Undantekningar
Mikilvægasta undantekningin á reglunni um ótakmarkað nýnæmi er forgangsréttarreglan sem lögfest er í 6. gr. el. og byggð er á ákvæðum 4. gr. Parísarsáttmálans frá 20. mars 1883 um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar. Aðrar minniháttar undantekningar er að finna í 5. mgr. 2. gr. el. Þar segir:
Einkaleyfi má veita fyrir uppfinningu þótt hún hafi orðið almenningi aðgengileg innan sex mánaða fyrir umsóknardag þegar það má rekja til:
1. augljósrar misbeitingar gagnvart umsækjanda eða einhvers sem hann sækir rétt sinn til eða
2. að umsækjandi eða einhver, sem hann sækir rétt sinn til, hafi sýnt uppfinninguna á opinberri eða opinberlega viðurkenndri alþjóðlegri sýningu samkvæmt sáttmála um alþjóðlegar sýningar sem gerður var í París 22. nóvember 1928.

Hvorug þessara undantekninga hafa mikla raunhæfa þýðingu.
Vegna þessara ströngu reglna um ótakmarkað nýnæmi þurfa uppfinningamenn og þeir sem öðlast hafa rétt hans að sýna ítrustu varkárni til þess að eyðileggja ekki möguleika sína á því að fá einkaleyfi á uppfinningu sinni. Það getur reynst mörgum erfitt, t.d. vegna þess að viðkomandi gerir sér ekki grein fyrir strax að um einkaleyfishæfa uppfinningu gæti verið að ræða eða að uppfinningamaður þekki hreinlega ekki þessa ströngu nýnæmisreglu laganna. Einnig getur þessi stranga nýnæmiskrafa skapað togstreitu í háskólasamfélaginu þar sem mikil áhersla er á að vísindamenn birti sem fyrst niðurstöður rannsókna sinna. Þess vegna hefur oft verið rætt um nauðsyn þess að innleiða í einkaleyfalög svokallaðan griðartíma til handa uppfinningamönnum. Griðartími samkvæmt þessu felur í sér að þrátt fyrir að uppfinningamaður, eða einhver sem öðlast hafi rétt hans, hafi gert uppfinningu sína aðgengilega almenningi þá getur hann allt að einu sótt um einkaleyfi fyrir henni innan einhverra ákveðinna tímatakmarka.

3.0 Norræn samvinna um einkaleyfalög og griðartímí
Á fjórða áratug síðustu aldar voru norrænir sérfræðingar á sviði einkaleyfa á því að innleiða ætti 6 mánaða griðartíma í norrænum lögum. Það komst hins vegar aldrei til framkvæmda. Finnar settu slíkt ákvæði í sín lög 1950 en það tók aldrei gildi og var afnumið við samræmingu norrænna einkaleyfalaga árið 1967. Í samnorrænu frumvarpi til nýrra einkaleyfalaga frá 1963 var aftur fjallað um hvort innleiða ætti griðartíma í norrænum einkaleyfalögum . Niðurstaðan varð neikvæð. Var aðalrökstuðningur sérfræðinganna gegn því að innleiða slíka reglu sá að almenningur ætti rétt á því að ætla að uppfinningar sem gerðar hefðu verið aðgengilegar almenningi væru til frjálsra afnota án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að seinna meir fengi einhver einkaleyfi á uppfinningunni. Önnur rök norrænu sérfræðinganna gegn innleiðingu griðartíma var að slíkt væri óraunhæft að gera nema það væri gert um heim allan. Því var griðartími ekki lögleiddur í samnorræn einkaleyfalög á sjöunda áratugnum.

4.0 Þróun á alþjóðavettvangi
Á áttunda áratug síðustu aldar fór að bera á röddum sem sögðu að þörf væri á innleiðingu griðartíma á alþjóðavettvangi. Voru Bandaríkjamenn framarlega í flokki en Bandaríkin eru ein þeirra þjóða sem hafa ákvæði um griðartíma í sínum lögum. Alþjóðasamtökin um verndun eignarréttinda á sviði iðnaðar; AIPPI, sendi frá sér samþykktir þar að lútandi strax 1980 og hefur síðan reglulega ályktað um þörfina á alþjóðasamkomulagi um griðartíma. Þetta leiddi til þess að WIPO hóf undirbúning árið 1984 að alþjóðasáttmála um griðartíma. Seinna var stefnan tekin á víðtækari sáttmála og sérfræðingahópurinn gerði drög að sáttmála sem hafði það að markmiði að samræma ýmsa efnisþætti einkaleyfalaga. Þar á meðal var ákvæði um 12 mánaða griðartíma. Þau drög voru samþykkt 1991 en urðu aldrei að sáttmála. Umræðan var síðan tekin upp aftur nokkru síðar en þá aðeins um formsatriði varðandi umsóknir. Það leiddi til þess að Einkaleyfasáttmálinn (PLT) var undirritaður í júní 2000 en sá sáttmáli fjallar eingöngu um formsatriði, eins og áður segir. WIPO tók aftur upp umræðu um samræmingu efnisatriða, þ.á.m. um griðartíma. Nú liggja fyrir drög að sáttmála um samhæfingu efnisatriða einkaleyfalaga sem nefndur er Substantive Patent Law Treaty (SPLT) ásamt drögum að reglugerð og leiðbeiningarreglum í tengslum við hann. Þessi drög hafa þegar verið rædd þrisvar sinnum af alþjóðlegum sérfræðingahópi WIPO og verða næst rædd nú í nóvember. Samkvæmt skýrslu AIPPI frá því í sumar þá er eining meðal flestra um að hafa ákvæði um 12 mánaða griðartíma í sáttmálanum, sem er nú að finna í 9. grein draganna. Hins vegar er ekki samkomulag um öll atriði sem varða griðartíma og er þá helst að nefna hvernig með rétt þeirra skuli fara sem nota uppfinninguna í góðri trú á griðartímanum, þ.e. hvort þeir eigi að hafa rétt til áframhaldandi notkunar hennar. Hins vegar er ljóst að framvinda mála hvílir ekki eingöngu á afstöðu ríkja til griðartíma heldur má vænta þess að samkomulag byggist á flóknu samspili samningsaðila, þ.e. samningsríkin hafa mismikinn áhuga á mismunandi ákvæðum.

5.0 Norræn afstaða til alþjóðlegs ákvæðis um griðartíma
Í upphafi umræðunnar innan WIPO um griðartíma voru norrænu þjóðirnar á móti því að sett yrði opið ákvæði um 12 mánaða griðartíma í fyrirhugaðan WIPO sáttmála um einkaleyfi. Danir lögðu fram málamiðlunartillögu á áttunda áratugnum um 6 mánaða griðartíma með mun takmarkaðra gildissvið, í raun aðeins örlitla útvíkkun á núgildandi ákvæðum um undanþágur frá ótakmörkuðu nýnæmi. Hin Norðurlöndin studdu þessa tillögu Dananna, þ.á.m. Ísland. Helstu rök þeirra gegn griðartíma voru að það væri andstætt meginreglunni um ótakmarkað nýnæmi; það væri hlutverk einkaleyfakerfisins að hvetja aðila til að sækja eins fljótt um einkaleyfi og mögulegt sé, en almennur griðartími ynni gegn því markmiði; griðartími gæfi uppfinningamanni falska öryggiskennd þar sem griðartími verndaði hann ekki gegn lögmætum birtingum annarra uppfinningamanna sem sjálfstætt hefðu gert sömu uppfinningu; griðartími yki vandkvæði í sönnunarmati; griðartími yki óvissuna varðandi hvað sé þekkt á umsóknardegi; almennur griðartími lengdi verndartíma uppfinningarinnar; og að lokum þá væri óraunhæft að innleiða griðartíma nema það yrði gert á alþjóðavísu.
Í dag er ekki samnorræn afstaða til þessa atriðis. Ísland er ekki aðili að PLT og tekur ekki þátt í sérfræðingavinnu WIPO um SPLT. Samkvæmt upplýsingum frá norskum einkaleyfayfirvöldum þá hafa Svíar sett sig á móti griðartíma en ekki hefur verið tekin formleg afstaða í Noregi. Heimildir segja að innan Evrópu sé beðið átekta með afstöðu en almennt sé viðhorfið jákvætt, það fari þó mikið eftir hversu eftirgefanlegir Bandaríkjamenn verði í öðrum ágreiningsatriðum í fyrirhuguðum umræðum, en einkaleyfakerfi þeirra er um margt ólíkt því evrópska. Menn búast því við að það muni taka mörg ár til viðbótar að ná samkomulagi.

6.0 Lokaorð
Almennt má segja að um leið og menn hafa samþykkt að þörf sé á undantekningum frá reglunni um ótakmarkað nýnæmi þá séu rökin gegn almennri reglu um griðartíma orðin léttvægari. Það virðist hreinlegra að hafa almenna reglu um griðartíma fremur en margar einstakar undantekningar á reglunni um ótakmarkað nýnæmi sem leiddu til flókinna ákvarðana um hvort aðilar hefðu sýnt nægilega aðgætni, eða sýnt ólögmæta hegðun o.s.frv. Þrátt fyrir að almennur griðartími yrði innleiddur þá væri enn þörf á því að uppfinningamenn sæktu um einkaleyfi eins fljótt og auðið er til þess að koma í veg fyrir að aðrir sem sjálfstætt hefðu gert sömu uppfinningu birtu sínar niðurstöður eða sæktu um einkaleyfi á griðartímanum og skemmdu þar með nýmæmi uppfinningarinnar með með tilliti til einkaleyfisumsóknar. Það er ekki ólíklegt á okkar dögum þegar menn eru að keppast við að verða á undan að þróa lausnir á ákveðnum vandamálum eða finna lyf við alvarlegum sjúkdómum. Griðartími myndi hjálpa þeim uppfinningamönnum sem ekki gerðu sér strax grein fyrir að þeir hefðu einkaleyfishæfa uppfinningu í höndum og þeim sem þekktu ekki einkaleyfiskerfið til hlítar. Sömuleiðis myndi griðartími geta minnkað togstreitu vísindamanna í háskólaumhverfi þar sem áhersla er á birtingu sem fyrst. Hins vegar skal tekið undir þá afstöðu að ákvæði um griðartíma er ekki raunhæft nema það sé lögleitt um á alþjóðavísu.